Upprisa - 28.11.2017

Viðskiptavinir 1984 hafa orðið varir við afleiðingar algers kerfishruns undanfarna daga. Enn er verið að rannsaka orsakir hrunsins, en aðalkraftur starfsfólks 1984 hefur þó farið í að koma lausnum viðskiptavina upp aftur. Þessir tímar hafa verið krefjandi, en ótrúleg þolinmæði og skilningur viðskiptavina okkar og vina hafa gert það að verkum að við höfum haldið dampi og sjáum nú fram á betri tíma og ásættanlegra þjónustustig fyrir venjulegar fyrirspurnir.

Nánast allar síður á deildri hýsingu eru nú komnar í loftið aftur, vefpóstur enduruppsettur, FTP svæði virk á ný og dashboard viðskiptavina virkt á ný svo dæmi séu tekin. Sýndarþjónar (VPS) eru nú í gagnabjörgnunarferli eða enduruppsetningu þar sem það er hægt.

Það mun það taka nokkra daga enn. Einnig erum við að vinna að því að tryggja uppsetningar enn betur og ganga úr skugga um að einstakar síður virki eins og til er ætlast. Gríðarlegu verki er lokið, en betur má ef duga skal, og það er óhætt að segja að við unum okkur ekki svefns fyrr en við náum stöðugleika og þeirri góðu þjónustu sem viðskiptavinir okkar hafa reynslu af síðastliðinn rúma áratug.

Við viljum þakka öllum sem hafa haft aðkomu að málum okkar á þessum krefjandi tímum, en þó sérstaklega því stórkostlega fólki sem ákvað að eiga við okkur viðskipti og treysta fyrir vefjum sínum. Manngæska og þolinmæði þeirra er sannarlega ótrúleg og eftirminnileg öllum hér um ókominn tíma. Við höldum áfram og værum óendanlega þakklát ef fólkið okkar heldur áfram með okkur.